Undirbúningur

Þá er undirbúningur jólanna í hæstu hæðum hérna í laugarholtinu. Ég, karlmaðurinn á heimilinu, að ógleymdu húsbóndinn einnig, hef bakað tvær af þeim fimm sortum sem ég tek fyrir þessi jólin. Spesíurnar klárar og svo var ég að klára við kókoshringin rosalegu. Restin af fjölskyldumeðlimum hefur séð til þess að koma upp jólaseríum víðsvegar um heimilið. Ég reyndar byrjaði að reyna að troða seríum í glugga eldri dótturinnar með vægast sagt hörmulegum afleiðingum. Ég kastaði þeim frá mér og fól frúnni að koma þeim upp, sem tók hana u.þ.b. 10mín, en áður hafði ég móast í þeim í að verða klukkutíma. Eftir að uppsetningu á seríum í gluggum var lokið þá var snúið sér að jólatrénu. Eldri dóttirin móaðist heilmikið í sitthvoru foreldrinu um að fá að skella jólatrénu upp og skreyta það, og lék þann leik að spyrja móður sína fyrst, sem neitaði henni um þessa ósk hennar. Þá var hálmstráið það að koma til mín, og ekki sá ég eitthvað athugavert við það og var það niðurstaðan og vorum við alveg óskaplega hamingjusöm fjölskylda að skreyta jólatréð. Hérna einmitt gefur að líta mynd af Alicju eftir að verkinu lauk.img_1305breytt.jpg

En já, önnur jólin mín framundan þar sem ég mun verða fjarri hreiðurs foreldra minna. Í fyrra gekk það líka ljómandi vel, eldaði þá gríðar ljúffenga bayonesskinku sem vakti heldur betur kátínu á meðal þeirra mæðgna. Í ár hef ég ekki tekið endanlega ákvörðun um það sem á boðstólnum verður, en þó hef ég ákveðið að bjóða upp á kalt hangikjöt og uppstúf og meððí á jóladag. Djöfull sem það er gott með laufabrauði, grænum baunum og rauðkáli, helst það miklu rauðkáli að þegar maður svona ropar "í hljóði" eftir matinn þá fær maður svona rauðkálsbragð í munninn. Mér þykir líklegt að ég bjóði fjölskyldunni upp á hamborgarahrygg á aðfangadag, með einhverjum svona flottum gljáa utan á sér.

Ég hef einmitt engar jólagjafir keypt þetta seasonið. Það pirrar mig svolítið en ég sé fram á að kaupa uppundir 10 gjafir handa vinum og vandamönnum + það sem við sendum svo út.

Það er reyndar eitt varðandi baksturinn, það er að frúin hefur sýnt þessum mikla áhuga mínum fyrir framan KitchenAid hrærivélina takmarkaðan gaum. Ég er alltaf að hvetja hana til þess að vera með mér að baka á meðan við raulum White Christmas t.d. en allt kemur fyrir ekki, hún kannski smellir einu eggi ofan í vélina og þar við situr. Svo þegar afraksturinn er komin á borðið, og smakkað þá brjótast út heilmikil fagnaðarlæti og allt ætlar stundum um koll að keyra. Hún sprangar um undirhökuna mína af dálæti yfir bakstrinum, því hún jafnvel veit að ég er frekar einfaldur og held þess vegna bara áfram að baka. Ég reyndar á bágt með gagnrýni, veit ekki alveg hvernig ég tæki því ef hún færi að tala um of mikinn sykur, eða of mikið hitt í uppskriftinni, þannig að það er bara fínt að hún "þykist" þá bara með þetta.

Ég var t.d. rétt í þessu að klára að baka kókoshringina og til þess að hafa það á kristaltæru, þá eru þetta bestu smákökurnar sem ég hef búið til. Stærsti kosturinn við þessar smákökur er það hversu einfaldar þær eru. Það reyndar kemur ekki að sök, því eins og fram hefur komið, er áhugi frúnnar takmarkaður og því get ég látið undirbúningin að bakstrinum líta út eins og um undirbúning að geimskoti væri að ræða og fæ ég því klapp á bakið.

En já, María vex og dafnar nokkuð vel. Hún er farin að borða eins og enginn sé morgundagurinn og hefur það væntanlega frá karli föður sínum, sem er gott. Hérna er svo mynd af henni í baði og ólíkt karli föður sínum, er hún ekkert vatnshrædd sem er einnig gott.img_1283breytt.jpg

Ég nubblega hef tvisvar sinnum verið nær dauða en lífi þegar kemur að vatni. Í fyrra skiptið var þegar ég hafði það náðugt í sundkennslu hérna forðum daga, og var í frjálsum tíma og hafði tekið mér kork undir hálsinn (hvernig er það samt hægt?) og dólaði mér með lokuð augun þangað til ég skall illilega á sundlaugarbakkanum með þeim afleiðingum næstum því að ég týndi lífinu(mér fannst það a.m.k. þá). Í seinna skiptið var það tæpum 20 árum seinna, þegar ég var staddur í heimsókn hjá Jóni Borgari og Erlu Sig, sem þá bjuggu í Kristiansand, þar sem við vorum stödd við strönd eina þar í bæ, og við syntum út á einhvern bevítans planka sem allir fóru. Ég misreiknaði vegalengdina og hélt að þetta væri bara grunnt alla leið neinei, það var nú aldeilis ekki raunin. Ég er komin rétt um helming leiðarinnar og taldi rétt að hvíla lúin bein og ætla mér að styðja mig við botninn sem var þá bara ekkert þarna, heldur miklu miklu neðar og þarna var ég, við dauðans dyr í leit að Hasselhoff og Pamelu en engan slíka var að finna þarna (sem er auðvitað glórulaust því ég er viss um að fjöldi fólks hefur týnt lífi sínu þarna á þessum stórhættulega stað) en þetta endaði með því að Jón Borgar tók baksundið á þetta og bjargaði lífi mínu þarna á örskotsstundu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahaha vá hvað ég hló mikið þegar ég las þetta blogg:) Sé að jólastemmarinn er sko kominn í gólann:) ég er eins og þú með seríurnar...ég get ekki sett þær upp...fer í vont skap...þolinmæðin í mínus...hehe...en vá hvað þú ert duglegur í bakstrinum...stelpurnar þínar eru ekkert smá heppnar:)

Hefði svo viljað vera viðstödd þessi tvö skipti sem þú "varst við dauðans dyr" ......endilega fleiri svona sögur af þér og þínum:)

ps. vá hvað María er orðin stór:)

Tinna (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 13:28

2 Smámynd: Ævar

Ja hun stækkar og stækkar stulkan :)

En eg var við dauðans dyr samt sko ! :) 

Ævar, 29.12.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband