Áhrifagjarn
10.10.2008 | 00:51
Ég er áhrifagjarn.
Mér hefur nú reyndar verið boðin fíkniefni hverskonar í gegnum tíðina en alltaf staðið þær árásir af mér enda er ég nú að upplýsa um áhrifagirni mína þegar kemur að svona málum sem eru í deiglunni hverju sinni. Ég féll þó aldrei fyrir rökstuðningi manna sem bentu mér á hobbitamyndirnar Lord of the rings væru skemmtilegar. Því þær eru það ekki.
Áhrifagirni mín hefur augljóslega komið í ljós undanfarna daga.
Lárus Welding byrjaði að tala um það hversu frábærlega vel rekinn Glitnir væri. Ég trúði því. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Halldór Kristjánsson, annar af bankastjórum Landsbankans talaði um gríðarlega sterka stöðu síns banka, auðvitað væru erfiðleikar, en þeir væru allsstaðar og bankinn gæti vel mætt þeim vanda. Ég trúði því. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Sigurður Einarsson, annar af mönnunum sem réði öllu hjá KB-Banka fékk heilt kastljós til þess að tala um hversu æðislega bankinn sinn stæði. Lausafjárstaða bankans var svo óendanlega yndisleg að leitun væri að öðrum eins ógeðslega frábærum banka. Ég kokgleypti það sem Sigurður sagði. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra talaði um það áður en blómin sprungu út í vor að botninum væri svo sannarlega náð, og að bjartari tímar væru framundan í þjóðarskútunni. Svo hjakkaðist hann á því fram eftir sumri og úpppsí, Glitnir - Landsbankinn og KB-Banki fóru á hliðina.
Undanfarna 3 daga hafa verið haldnir blaðamannafundir þar sem Geir hefur sagt mér og þjóðinni að allt sé í lagi og að hann væri sannfærður um að betri tímar væru í nánd. Hann sagði það t.d. eftir að Glitnir fór. Ég trúði því, liðu nokkrir dagar og Landsbankinn, banki allra landsmanna var farinn sömu leið og Glitnir. Þá var hamrað á því að núna hlyti þetta bara að vera búið, enda væri KB-Banki svo ofboðslega stór og sterkur banki að núna sko væru bjartari tímar framundan. Eftir nokkra klukkutíma gengu Hreiðar Már og Sigurður með skottið á milli lappanna frá höfuðstöðvum FME. Bankinn þeirra fór líka.
Dr. Matthiesen náði þeim merka árangri að segja við Darling á ensku símleiðis að ekki væri það á þeirra ábyrgð þó svo að einhverjir bretar hefðu tapað stórum upphæðum á landsbankanum. Sett voru að ég held svokölluð hryðjuverkalög á íslendinga í landi kalla bretaprins. Geir hringdi í Brown og útskýrði fyrir honum að Árni væri ekkert sérstakur í ensku og hefði klikkað aðeins. Eftir þessa söguskýringu Árna fyrir Darling fór KB-Banki á höfuðið. Glæsilegt hjá Árna.
Davíð Oddsson fékk einnig heilan kastljós þátt undir sig og báru honum menn vel söguna, sérstaklega sjálfstæðismenn. Þar talaði hann um Baug sem sjoppu og lýsti aðdáun sinni á Rússa. Sannfæringamáttur Deivids var slíkur að ég hélt strax eftir viðtalið að kreppan sem nú ríkir í heiminum en þó sérstaklega á íslandi hafi bara verið i raun misskilningur. Við hefðum það fínt hérna.
Öllum að óvörum benda frjálslyndir á leið út úr þeim dimma dal sem við erum í. Stækka þorskveiðikvótann. Afskaplega frumlegt hjá þessum flokki og spái ég því að næsta hugmynd að mótvægisaðgerð frjálslynda við kreppunni, verði að vísa 85% af útlendingum úr landi. Í leiðinni ítreka þeir andstöðu sína við einstæðu mömmurnar á akranesi.
Svo í dag fór Geir í ham á þriðja blaðamannafundinum og lýsti skoðun sinni á Helga Seljan, og kallaði hann fífl og dóna.
Varaformaður samfylkingarinnar vildi svo láta reka Deivid úr seðlabankanum. Það er svona svipuð tilllaga og ef kona í ástarsambandi við karlmann stingi upp á því við manninn sinn að þau myndu kasta pabba hans fram af bjargi.
Athugasemdir
hehehhe frábært blogg!!...en ég sendi samúðarkveðjur til þín í Gólann!!
Tinna (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 15:24
Þakka þér fyrir Tinna mín, alltaf gott að fá hughreystandi kveðjur :)
Ævar, 12.10.2008 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.