Liverpool
17.9.2008 | 15:53
Á þessari meðfylgjandi mynd gefur að líta Guðjón Arnar og Aniu Rycik, bestu vinkonu frúnnar minnar en þarna eru þau stödd á bryggjunni í Ustka, þar sem fram fór myndatakan úr brúðkaupinu. Á bryggjunni hittum við fyrir svona mótorhjólanagla sem þáði eina Vodka-flösku fyrir lán á hjólinu í 20mín.
Í gær áttust við í frakklandi, Marseille og Liverpool en til virkilega gamans má geta þess að Liverpool einmitt burstaði Man.Utd á Anfield nú um helgina, 2-1. Þrátt fyrir að 2-1 sé ekki endilega vísbending á að sigurliðið hafi "burstað" andstæðinginn þá var það nú engu að síður svo um helgina. Leikmenn Liverpool leyfðu United-mönnum að spila fótbolta í 10mín en eftir það, í rúmlega 80mín tóku mínir menn öll völd á vellinum og stóðu leikmenn á borð við Dimitar "30milljónir punda" Berbatov, Rio "30milljónir punda" Ferdinand, Carlos "35milljónir punda" Tevez, ásamt fleirum úr United, agndofa í leikslok, enda sjaldan sem eitthvað lið yfirspilar ensku meistaranna eins og Liverpool gerði nú um helgina.
En já, Marseille komst yfir gegn Liverpool 1-0 á 23mín og þá þurfti að jafna leikinn og hver var betur til þess fallinn en fyrirliði liðsins, Steven Gerrard með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Svo var réttilega brotið á öðrum frábærum leikmanni Ryan Babel og úr vítinu skoraði fyrrnefndur Gerrard örugglega og staðan 2-1 og frábær útisigur gegn nokkuð vel spilandi liði Marseille staðreynd.
Nú get ég án nokkurs vafa talað um "mína fjölskyldu", enda á heimilinu 2 fullorðnir og 2 börn og því fell ég eflaust inn í umræðurnar á alþingi þar sem talað er um "fjölskyldunum í landinu er ekkert sama" o.s.frv.o.s.frv. og þess vegna ætla ég að gera mikið úr svona neytendamálum hérna á síðunni. Núna ætla ég t.d. að byrja á því að ræða eina verslunarferð hjá okkur fjölskyldunni nú um daginn.
Það var sunnudagur og sólin heiðraði okkur með nærveru sinni og hlýju allan daginn og fannst mér þegar ég teygði úr mér snemma morguns þann dag að þetta væri nú aldeilis dagurinn. Hann byrjaði vel, krökkunum var gefið að borða og þeir elstu nærðust einnig. Svo var horft á barnaefni í u.þ.b. klukkutíma og svo var ákveðið að fara í göngutúr. Lagt var af stað og vorum við svona fjölskylduleg með barnavagninn og vorum ekki búinn að labba langt þangað til pabbinn og eldra barnið staðnæmdust á leikvelli þar sem var rólað í góðan hálftíma. Svo var haldið áfram og áfram þar til eldri stúlkan sá annan leikvöll sem hún nauðsynlega þurfti að komast á, til þess að leika og þegar samningar voru undirritaðir var niðurstaðan sú að hún fór og lék sér á meðan restin af fjölskyldunni, sú yngsta og foreldrarnir þurftu aðeins að "skjótast" inn í eina verslun hér í bæ. Þessi verslun er rekin af Samkaup, og heitir Úrval. Ég er nú vel meðvitaður um verðbólguna sem ríður yfir allt og alla á þessu kalda skeri okkar og spái í því svona stundum í það hvað hlutirnir kosta og slíkt áður en þeir eru rifnir úr búðarhillunni. Svo þegar við mættum með okkar fátæklegu körfu að kassanum og vörunum pípað í gegn hóf afgreiðsludaman upp rödd sína. "Eitthvað fleira" "Nei takk" "Þá verða þetta 11.359.-" ! Ég reyndi að halda lúkkinu þarna fyrir framan kassann og rétti því fram kortið mitt og spurði hún mig svo að því hvort ég vildi kvittunina, og svaraði ég játandi. Svo þegar ég var búinn að þrykkja þessum lífsnauðsynjum hverrar fjölskyldu ofan í rándýra poka fyrirtækisins sem ég hafði einnig keypt og var komin út sendi ég barnavagninn á frúna mína og fór að rýna í kvittunina, eins og um væri að ræða nískasta og mest pirrandi kúnna í verslunarsögu þjóðarinnar þá kom það í ljós ! Það hafði beinlínis verið logið að mér, er varðar verð á mörgum vörum, ef að þetta hefði verið einstakt atriði hefði ég nú ekki pirrað mig sérstaklega á því en um var að ræða 4 vörutegundir sem voru rangt verðlagðar í hillu m.v. kassaverð og viðbrögð mín við þessum hörmungarfréttum voru eflaust eins og hjá mörgum. Ég semsagt tuðaði um þetta á leiðinni heim og hringdi út í vini og kunningja og kvartaði og kveinaði í þeim vegna þessa verslunarleiðangurs. Þarna auðvitað hefði ég átt að snúa við með kvittunina og fá endurgreiddan mismuninn, sem var í kringum 700 krónur.
Í dag eru sumsagt 3 dagar síðan þessar hörmungar riðu yfir fjölskylduna, og hét ég mér því á sunnudaginn, að inn í þessa fokdýru verslun færi ég ekki í nánustu framtíð. Í morgun var svo smjörið "Smyrja" ekki til í Kaskó, og fór ég því í úrval og verslaði það þar, og svo svona eitt og annað í leiðinni og virðist ég hafa því tekið verslunina í sátt, eftir aðeins 3 daga í fýlu. Þess má svo til gamans geta að ég er íslendingur, fæddur hér og uppalinn.
Athugasemdir
Guðjón Arnar (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 21:16
Já því er ekki að neita Gauji, að myndin af þér með þessari undurfögru snót er virkilega æsandi :)
En já þetta vonandi verður að veruleika hjá okkur kögglunum eftir nákvæmlega 7 daga. 6 ára afmælisferð :)
Ævar, 18.9.2008 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.