Færsluflokkur: Bloggar
Borgarfulltrúi vill skýringar !
12.10.2008 | 10:33
Það að borgarfulltrúi vilji fá frekari skýringar á einhverju er fyndið. Ég brosti hænislega þegar ég las þessa fyrirsögn "Gísli Marteinn: Vill frekari skýringar á Rússaláni"
Það hefði verið alveg sama hvaða borgarfulltrúi hefði viljað skýringar á þessu máli eða öðrum málum, mér hefði einnig þótt það fyndið.
Eftir fáránleikann í kringum allt þetta kjörtímabil í höfuðborg landsins þá skýtur borgarfulltrúi upp kollinum og óskar eftir skýringum á þessu hugsanlega rússaláni. Gísli Marteinn ætti heldur að reyna að koma lagi á þær rústir sem borgarstjórnaflokkur sjálfstæðisflokksins er og aðrir oddvitar annarra flokka ættu að gera slíkt hið sama.
En úr því að sá borgarfulltrúi sem óskar eftir frekari er sjálfstæðismaður væri nær fyrir hann að óska eftir frekari skýringum á orðum Kjartans Gunnarssonar t.d. um ræðu hans á fundi með öðrum sjálfstæðismönnum, þar sem Kjartan á að hafa beint vel ydduðum spjótum sínum að leiðtoga flokksins, Davíð Oddssyni. Þannig að fyrirsögnin hefði átt að vera "Gísli Marteinn: Vill frekari skýringar á ræðu Kjartans Gunnarssonar"
En þegar öllu er reyndar svo á botninn hvolft þá tek ég undir það með borgarfulltrúanum Gísla Marteini að það verður forvitnilegt að sjá hvað rússarnir hafa að bjóða okkur, því ég tel að rússarnir eru ekki að þessu bara til þess að vera svona ofboðslega vingjarnlegir og frábærir vinir okkar.
En ég held að þeir sem eigi að óska eftir frekari skýringum á svona málum, líkt og Gísli Marteinn gerir, sé fólk í þjóðfélaginu sem þjóðin ber traust til en því miður fyrir Gísla Martein, sem og aðra borgarfulltrúa þá þarfnast ráðhús reykjavíkur nýrra starfsmanna í borgarfulltrúastöðurnar.
Gísli Marteinn: Vill frekari skýringar á Rússaláni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhrifagjarn
10.10.2008 | 00:51
Ég er áhrifagjarn.
Mér hefur nú reyndar verið boðin fíkniefni hverskonar í gegnum tíðina en alltaf staðið þær árásir af mér enda er ég nú að upplýsa um áhrifagirni mína þegar kemur að svona málum sem eru í deiglunni hverju sinni. Ég féll þó aldrei fyrir rökstuðningi manna sem bentu mér á hobbitamyndirnar Lord of the rings væru skemmtilegar. Því þær eru það ekki.
Áhrifagirni mín hefur augljóslega komið í ljós undanfarna daga.
Lárus Welding byrjaði að tala um það hversu frábærlega vel rekinn Glitnir væri. Ég trúði því. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Halldór Kristjánsson, annar af bankastjórum Landsbankans talaði um gríðarlega sterka stöðu síns banka, auðvitað væru erfiðleikar, en þeir væru allsstaðar og bankinn gæti vel mætt þeim vanda. Ég trúði því. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Sigurður Einarsson, annar af mönnunum sem réði öllu hjá KB-Banka fékk heilt kastljós til þess að tala um hversu æðislega bankinn sinn stæði. Lausafjárstaða bankans var svo óendanlega yndisleg að leitun væri að öðrum eins ógeðslega frábærum banka. Ég kokgleypti það sem Sigurður sagði. Hann fór í þrot mjög fljótlega.
Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra talaði um það áður en blómin sprungu út í vor að botninum væri svo sannarlega náð, og að bjartari tímar væru framundan í þjóðarskútunni. Svo hjakkaðist hann á því fram eftir sumri og úpppsí, Glitnir - Landsbankinn og KB-Banki fóru á hliðina.
Undanfarna 3 daga hafa verið haldnir blaðamannafundir þar sem Geir hefur sagt mér og þjóðinni að allt sé í lagi og að hann væri sannfærður um að betri tímar væru í nánd. Hann sagði það t.d. eftir að Glitnir fór. Ég trúði því, liðu nokkrir dagar og Landsbankinn, banki allra landsmanna var farinn sömu leið og Glitnir. Þá var hamrað á því að núna hlyti þetta bara að vera búið, enda væri KB-Banki svo ofboðslega stór og sterkur banki að núna sko væru bjartari tímar framundan. Eftir nokkra klukkutíma gengu Hreiðar Már og Sigurður með skottið á milli lappanna frá höfuðstöðvum FME. Bankinn þeirra fór líka.
Dr. Matthiesen náði þeim merka árangri að segja við Darling á ensku símleiðis að ekki væri það á þeirra ábyrgð þó svo að einhverjir bretar hefðu tapað stórum upphæðum á landsbankanum. Sett voru að ég held svokölluð hryðjuverkalög á íslendinga í landi kalla bretaprins. Geir hringdi í Brown og útskýrði fyrir honum að Árni væri ekkert sérstakur í ensku og hefði klikkað aðeins. Eftir þessa söguskýringu Árna fyrir Darling fór KB-Banki á höfuðið. Glæsilegt hjá Árna.
Davíð Oddsson fékk einnig heilan kastljós þátt undir sig og báru honum menn vel söguna, sérstaklega sjálfstæðismenn. Þar talaði hann um Baug sem sjoppu og lýsti aðdáun sinni á Rússa. Sannfæringamáttur Deivids var slíkur að ég hélt strax eftir viðtalið að kreppan sem nú ríkir í heiminum en þó sérstaklega á íslandi hafi bara verið i raun misskilningur. Við hefðum það fínt hérna.
Öllum að óvörum benda frjálslyndir á leið út úr þeim dimma dal sem við erum í. Stækka þorskveiðikvótann. Afskaplega frumlegt hjá þessum flokki og spái ég því að næsta hugmynd að mótvægisaðgerð frjálslynda við kreppunni, verði að vísa 85% af útlendingum úr landi. Í leiðinni ítreka þeir andstöðu sína við einstæðu mömmurnar á akranesi.
Svo í dag fór Geir í ham á þriðja blaðamannafundinum og lýsti skoðun sinni á Helga Seljan, og kallaði hann fífl og dóna.
Varaformaður samfylkingarinnar vildi svo láta reka Deivid úr seðlabankanum. Það er svona svipuð tilllaga og ef kona í ástarsambandi við karlmann stingi upp á því við manninn sinn að þau myndu kasta pabba hans fram af bjargi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eftirfarandi eignir til sölu
8.10.2008 | 10:40
Hef ákveðið, eftir sviptingar undanfarna daga í efnahagslífi þjóðarinnar (eða í sjálfu sér er ekki hægt að kalla þetta sviptingar, miklu frekar hrun) að mæta þeim þrengingum, eins og sönnum ábyrgum fjölskylduföður ber skylda til, og setja á sölu eftirfarandi hluti í minni eigu.
- Rósrauðar gardínur (þær eru mjög stórar og því nokkuð víst að hugsanlegir kaupendur hafi not fyrir þær) Óskað er eftir tilboðum í þær á netfangið mitt. Einnig get ég sent myndir af þeim þar sem fólk getur skoðað munstrið.
- 2 þrengingar í haglabyssur. Þær seljast ekki í sitthvoru lagi og er verðmiðinn á þær 1.400.-
- Stafróið með segul aftan á sér. Stafirnir eru í mismunandi litum en þó vantar stafina G og R. Tilvalið fyrir yngri kynslóðina að leika sér með á ískápnum. Óskað er eftir tilboðum í stafróið og er sama fyrirkomulag þar eins og er í fyrsta lið.
- Tæplega 1 og 1/2 kílógramm af brytjaðri mör. Um er að ræða fyrsta flokks mör, fengna frá Norðlenska. Ásett verð 440.- krónur. Tilboðsverð sem gildir í kvöld og fram á laugardag, 410.- krónur
- Grænn bolur, merktur "Tónninn" við vinstra brjóst. En athygli kaupanda skal vakin á nokkrum rauðum málningarblettum á bolnum en úr fjarlægð sjást blettirnir ekki. Verð, 650.- krónur
- 2 pör af sokkalistum. Sokkalistarnir eru merktir "Intersport" og kostar parið af þeim 75.- krónur.- Þeir eru hvítir að lit, en "Intersport" merkið er svart að lit.
- Símasnúra. 2ja metra löng símasnúra til sölu, sést nokkuð á henni en hefur verið bætt með svörtu teipi á þeim stöðum sem verstir eru. Enginn verður var við þessar skemmdir, teipið þekur algerlega yfir þær skemmdir. Ef keypt er fyrir meira en 700.- af þessum hlutum sem eru hér til sölu, mun snúran fást með 10% afslætti en verðið á henni annars er 500.- krónur
- Rétt tæplega 300ml af Esso Ultron. Þykktin á olíunni er 10/40 og er hún því kjörin fyrir íslenskar aðstæður. Óskað er eftir tilboðum í þessa hágæðaolíu.
- 3 ítalskar rafmagnsklær. Seljast á 100.- krónur stk en ef allar eru keyptar saman fást þær á 135.- krónur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bruggið og Lödurnar
7.10.2008 | 08:58
Þarna eru augljóslega vinir okkar, Pútín og co. Við íslendingar höfum nú áður átt í viðskiptum við rússa, kannski ekki í risastórum viðskiptum við hæstráðendur í Kreml en "rússaskipin" svokölluð hafa t.d. oft lagt upp hérna á víkinni og hafa ófáir íslendingarnir skipt á gömlu lödunum sínum við áhafnir bátanna fyrir brugg og sígarettur.
Ég var nú svo óheppinn að hafa aldrei átt Lödur, en ég veit um marga aðila sem komu valhoppandi af gleði frá bryggjunni, vopnaðir sígarettum og bruggi sem þeir höfðu fengið frá rússunum.
Svo var ég að skoða pólska zlotið. 1 zlot kostar mig núna 50 krónur, kostaði mig fyrst þegar ég fór til Póllands ca.23 krónur (2 ár). Þegar frúin hringir núna síns heimalands og talar þar við foreldra og aðra ættingja um stöðu íslensku krónunnar þá er ljóst að allt það fólk lítur ekki lengur á mig sem kónginn frá íslandi. Þegar ég fer erlendis næsta sumar til þeirra allra, þá lítur allt út fyrir það að það eina sem ég versla mér verða núðlupakkar á tilboðum og bætur á buxurnar mínar.
Seðlabankinn fær lán frá Rússlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2008
6.10.2008 | 23:32
Glæsilegt !
Eftir að því var þvingað inn í hausinn á manni hvað allir þessir víkingar væru frábærir eru semsagt komin lög yfir aðferðir þeirra. Þeir féllu.
Man eftir því að í einhverjum umræðuþættinum á árunum 2004-5 var Hannes Smárson (vegna snilldar hans) spurður að því hvort hann væri ekki tilbúinn í að taka sæti í ríkisstjórn íslands.
Nenni ekki að eyða orðum mínum í svarið hans, en núna er það nokkuð augljóst að Hannes Smárson á ekkert erindi í ríkisstjórn íslands.
Ný lög um fjármálamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bestur
2.10.2008 | 10:39
Það liggur auðvitað í augum uppi að Steven Gerrard er langbesti enski leikmaðurinn í dag, og klárlega einn af 4 bestu leikmönnum heims að mínu mati, aðrir leikmenn á þeim lista væru Kaká, Messi og Ronaldo, svo geta menn raðað þeim á listann eftir því hvern menn halda mest uppá.
Að mínum dómi er Steven Gerrard besti leikmaður heims í dag, og mælieiningin sem ég nota við þá útreikninga er einföld. Ég væri ekki tilbúinn að skipta Gerrard út og fá einhvern fyrrgreindan, eða hvern sem er í hans stað á Anfield.
Það kemur í ljós núna, að þegar menn voru að bera saman annarsvegar Steven Gerrard og svo hinsvegar Frank Lampard að sá samanburður er óþarfur. Utan við augljósa knattspyrnuhæfileika Gerrard þá eru leiðtogahæfileikar hans verulegir. Það er t.d. ótrúlegt að Steven Gerrard sé ekki enn komin með fyrirliðaband englands ! Ég spái því nú samt að fljótlega mun Capello komast að því að bandið er best geymt á upphandleggi Steven Gerrard.
Gerrard sextándi á 100 marka listann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Förum til Póllands !
1.10.2008 | 00:20
Já, það eru ekki margar vikur síðan ég hallaði mér aftur í sófanum hérna heima og var að gorta mig af "íslenska undrinu" við pólsku eiginkonu mína (vá nýgiftur og fyrsta skipti sem ég tala um eiginkonu). Ég var að reyna að útskýra fyrir henni hversu viðbjóðslega gáfaðir við íslendingar vorum og talaði um það við hana að við ættum rosalega æðislega gáfaða útrásarmenn.
Núna er aðrir tímar, og mjög svo breyttir.
Frúin hefur nefninlega annarslagið sent út til fjölskyldumeðlima (sérstaklega eldri bróður síns) peninga sem hún hefur unnið sér inn hérna á þessu ævintýralandi útlendinga undanfarinna ára. Henni hefur tekist að brauðfæða fjölskyldu þarna úti með svona "smotteríis" peningum. Ég man t.d. eftir fyrstu ferð minni þarna út, lenti í Gdansk í skítakulda 27.desember árið 2006 og brunaði til fjölskyldu hennar, og var ekki búinn að vera þar í 3 daga þegar ég hafði fjárfest mér í myndavél, myndavél sem kostaði úti 3.000 zlot. Þegar ég kom "heim" með gripinn frá Slupsk (staður rétt fyrir utan Ustka þar sem eiginkonan á heimili) var stórfjölskyldan kölluð saman, systkini og aðrir ættingjar til þess að berja myndavélina augum og horft var á mig líkt og íslendingar horfðu á Hannes Smárson, slík var aðdáunin. Núna er það uppi á tengingnum fræga að þessir "smáaurar" sem áður voru sendir til póllands eru ekkert lengur þessir smáaurar. Það verður slæmt næsta sumar þegar maður týmir ekki lengur að bjóða tengdapabba upp á dýrasta pólska bjórinn í búllunni af því að íslenska undrið virkar ekki lengur.
Núna er maður alvarlega farinn að velta því fyrir sér hvort það sé einfaldlega ekki best að flytja bara þangað austur, þar kostar brauðhleifurinn 50 krónur á móti tæpum 300 kalli hérna svo dæmi sé tekið.
Ég spái því að ég verði fluttur þangað út fyrir árið 2011 og orðinn pólskur ríkisborgari 2018 og verð hættur að kunna að beygja nafnið mitt u.þ.b. 2025. Á þeim tíma verð ég orðinn þjálfari Jantar Ustka sem er knattspyrnuliðið í Ustka og mun ég koma þeim eitthvað áfram í norðaustur-riðli póllands. Svo verð ég fengin til þess að túlka fyrir alla þá íslendinga sem koma til póllands sem farandverkamenn til þess að vinna í einhverjum haugskítugum kolanámum.
Svo finnst mér rétt að það komi fram að ég mun aldrei kjósa frjálslynda flokkinn.
Krónan veiktist um 5,3% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlutverk sendiherra leiklistar
28.9.2008 | 09:29
Hvaða hlutverki gegnir sendiherra leiklistar í heiminum ?
Þetta kemur persónu Vigdísar ekkert við, alltaf þótt hún frekar svona ömmuleg kona og alltaf eitthvað svo kammó.
En þegar hún vaknar t.d. í fyrramálið, við upphaf venjulegrar vinnuviku venjulegs fólks, ætli hún hugsi með sér "Jæja, þá er ég orðin sendiherra leiklistar í heiminum, best að hefjast handa".
Fyrsti sendiherra leiklistar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rooney - Gascoigne
28.9.2008 | 00:52
Það er alltaf eitthvað sérkennilegt við það þegar svona náungar eru að gaspra. Rooney minnir mann töluvert á Gascoigne, nema Gazza var miklu miklu miklu betri fótboltamaður en þessi ofvaxni hobbiti.
Liverpool á enga möguleika á titlinum segir hann ! Veit ekki betur en að Liverpool hafi t.d. yfirspilað United núna um daginn. Ég skal reyndar viðurkenna það að jafnteflið gegn Stoke setti mann örlítið útaf laginu. Í dag, laugardag þurfti United á aðstoð Styles dómara að halda gegn Bolton í leikhúsi draumanna eða hvað sem þeir kalla þennan leikvang sinn.
Undanfarin ár hafa verið misheppnuð hjá Gazza. Drykkja og ofbeldi eru orð sem jafnan eru notuð þegar rætt er um Paul Gascoigne. Ég spái því að Wayne Rooney fari nákvæmlega sömu leið. Nú þegar sér maður blikur á lofti þess efnis, kemst varla í byrjunarlið enska landsliðsins (sem er meira að segja lélegt landslið) vegna þess að svarta perlan Emile Heskey hefur blómstrað og er ég þess fullviss að ef skambyssu yrði miðað í hausinn á Capello þegar hann yrði spurður hvort hann veldi Rooney eða Heskey yrði Heskey fyrir valinu.
Semsagt, eftir 2 ár verður hann seldur til Tottenham fyrir 12,5 milljónir punda. Svo tveim árum seinna til Everton fyrir 7 milljónir punda þar sem hann endar sinn knattspyrnuferil. Hann mun svo mjög fljótlega eftir það ánetjast fíkniefnum og óhóflegri áfengisdrykkju sem verður til þess að örfáum árum eftir að knattspyrnuferli hans lýkur mun fólk minnast hans sem drykkjufants.
Rooney: Liverpool á ekki möguleika á titlinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það átti svo að taka þær
26.9.2008 | 23:03
og þá meina ég svooooo.
Vaknaði upp óvenju hress og kátur í morgun, enda frekar spenntur fyrir fyrsta "formlega" gæsarúntinum. Fórum 3 af stað í morgun og þá var það formsatriði að fá leyfi fyrir því að fá að liggja í einhverju túnssparðinu. Svo var maður handviss um að heim kæmum við með á bilinu 7-10 gæsir af rúntinum. Það var nú ekki aldeilis raunin. Ég hef svo nákvæmlega ekkert við þetta að bæta. Fór í átvr og keypti mér bjór til þess að "dekka ti a geyma" eins og það var nú orðað af einum af okkar helstu konungum alkohólsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)