Tímarnir breytast maður
10.11.2008 | 00:39
Man eftir fyrstu samskiptum mínum við konuna. Ég hef nú áður komið inn á þetta og finnst jafnvel skemmtilegra að koma inn á það núna. En ætli það séu ekki rétt um 2 og 1/2 ár síðan hinn frægi amor dúndraði örvum sínum niður í mitt litla hjarta, því allt í einu var ég staddur þarna, í blokkinni, fullur og umvafinn fólki að erlendum uppruna, ásamt Einari Gesti.
Á þessum tíma slefaði maður yfir þessum útrásarvíkingum, nenni ekki að nafngreina einhverja sérstaklega en fólk veit alveg við hverja ég á við. Það leið 1/2 ár þar til ég var kominn út, um áramótin 2006/7. Þar valsaði maður um, vopnaður gullvisakortinu sínu og til í slaginn, áfengið kostaði ekki neitt á íslenskan peningamælikvarða og ættingjar og vinir konunnar komu heim til þess að berja þennan þybbna náunga augum og þarna var hann, sitjandi með í vörinni að drekka kók. Á þessum tíma nákvæmlega hefur mér örugglega liðið ekkert ósvipað og þessir útrásarvíkingar okkar undanfarin ár.
Svo fór maður í heimsókn til aldraðra frænkna Aniu, því sökum heilsuleysis sáu þær sér ekki fært að mæta heim og horfa á mig. Upptökur frá gömlum ræðum Jóhannesar Páls Páfa voru jafnvel settar á pásu og þar sat maður, á meðan gömlu konurnar muldruðu sín á milli, á gríðarlega hraðri pólsku. Svo leit maður í áttina til þeirra á leifturhraða og þær svona stoppuðu, en brostu svona aðdáunaraugum til mín. Þarna var ég líka með í vörinni. En ég brosti til baka til þeirra, enda góðlegar, feitlagnar gamlar konur sem buðu upp á kaffi og með því.
Svo komum við heim og vinir Aniu, af sama erlenda upprunanum komu hingað við í heimsókn, og m.a. til að fá útskýringar hjá mér hvers vegna þessir bankar t.d. væru svona ofboðslega rosalega ótrúlega frábærir. Það hefur komið fyrir (kannski 3-4x) að í sófanum hérna heima hafa pólverjar setið á meðan ég hef reynt að útskýra þessi mál fyrir þeim, þ.e. hversu ótrúlega klárir sumir menn eru. Þarna var ég að tala um okkar bestu menn, útrásarvíkingana. Bankakerfið okkar væri svo stöðugt að ekkert gæti haggað jafn tryggu bankakerfi. Á meðan á þessum útskýringum stóð horfðu þeir svipuðum augum á mig og gömlu konurnar í póllandi, svona allt að því "öfundaraugum" yfir því að ég skuli vera íslendingur og það hversu frábært það hlyti bara að vera.
Úppsí...9.nóvember 2008
Núna eru breyttir tímar. Það berast mjög reglulega símtöl að utan og spurningar eru svohljóðandi "Er það rétt að ekki er hægt að taka peninga út úr bönkum þarna" "Eru matvöruverslanir að verða tómar" "Ætliði ekki bara að fara drífa ykkur heim (til póllands)".
Svo núna, þegar sömu gesti bar að garði hér fyrir 1 - 1 og hálfu ári síðan eins og ég nefndi áður, koma þá svona læðist maður með veggjum inn á sínu eigin heimili. Ég hef fundið einn mjög áþreifanlegan mun á stöðunni núna gagnvart pólverjum m.v. áður. Það eru ferðirnar inn á akureyri.
Á þeim tíma, líkt og nú á dögum hef ég gert mér ferðir fyrir pólverja inn á akureyri. Ef þeir t.d. hafa þurft að nýta sér læknisþjónustu eða eru að fara í flug suður, eða til Köben hef ég svarað kallinu í 99% tilvika og skotið þeim inneftir. Hérna áður fyrr voru þeir ekkert mikið að spá í að borga fyrir farið, með t.d. bensínstyrk. Það kom þó fyrir að þeir laumuðu til mín 2-3.000.- kalli fyrir ómakið, sem var bara fínt og sanngjarnt. Núna hinsvegar er það þannig að þeir eiga erfiðara með það en áður að spyrjast fyrir um hvort ég sé klár. Ég er nú alltaf klár, en núna eru þeir búnir að dobbla upphæðina, komnir kannski upp í 5-6.000.- kall og meira að segja í einni ferðinni voru mér réttir tveir 5.000 þúsund króna seðlar og ég leit í augu viðkomandi og fékk til baka svona samúðaraugnaráð.
Athugasemdir
Æ .. .leitt að heyra, en vona að ykkur gangi vel
Linda (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 00:58
Ekki gera mikið grín af manninum hér að ofan..... Hann er nefnilega vel giftur.
Konan hans er Flateyjingur.
Ragnar Hermannsson, 10.11.2008 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.