Eftirfarandi eignir til sölu
8.10.2008 | 10:40
Hef ákveðið, eftir sviptingar undanfarna daga í efnahagslífi þjóðarinnar (eða í sjálfu sér er ekki hægt að kalla þetta sviptingar, miklu frekar hrun) að mæta þeim þrengingum, eins og sönnum ábyrgum fjölskylduföður ber skylda til, og setja á sölu eftirfarandi hluti í minni eigu.
- Rósrauðar gardínur (þær eru mjög stórar og því nokkuð víst að hugsanlegir kaupendur hafi not fyrir þær) Óskað er eftir tilboðum í þær á netfangið mitt. Einnig get ég sent myndir af þeim þar sem fólk getur skoðað munstrið.
- 2 þrengingar í haglabyssur. Þær seljast ekki í sitthvoru lagi og er verðmiðinn á þær 1.400.-
- Stafróið með segul aftan á sér. Stafirnir eru í mismunandi litum en þó vantar stafina G og R. Tilvalið fyrir yngri kynslóðina að leika sér með á ískápnum. Óskað er eftir tilboðum í stafróið og er sama fyrirkomulag þar eins og er í fyrsta lið.
- Tæplega 1 og 1/2 kílógramm af brytjaðri mör. Um er að ræða fyrsta flokks mör, fengna frá Norðlenska. Ásett verð 440.- krónur. Tilboðsverð sem gildir í kvöld og fram á laugardag, 410.- krónur
- Grænn bolur, merktur "Tónninn" við vinstra brjóst. En athygli kaupanda skal vakin á nokkrum rauðum málningarblettum á bolnum en úr fjarlægð sjást blettirnir ekki. Verð, 650.- krónur
- 2 pör af sokkalistum. Sokkalistarnir eru merktir "Intersport" og kostar parið af þeim 75.- krónur.- Þeir eru hvítir að lit, en "Intersport" merkið er svart að lit.
- Símasnúra. 2ja metra löng símasnúra til sölu, sést nokkuð á henni en hefur verið bætt með svörtu teipi á þeim stöðum sem verstir eru. Enginn verður var við þessar skemmdir, teipið þekur algerlega yfir þær skemmdir. Ef keypt er fyrir meira en 700.- af þessum hlutum sem eru hér til sölu, mun snúran fást með 10% afslætti en verðið á henni annars er 500.- krónur
- Rétt tæplega 300ml af Esso Ultron. Þykktin á olíunni er 10/40 og er hún því kjörin fyrir íslenskar aðstæður. Óskað er eftir tilboðum í þessa hágæðaolíu.
- 3 ítalskar rafmagnsklær. Seljast á 100.- krónur stk en ef allar eru keyptar saman fást þær á 135.- krónur.
Athugasemdir
Ég býð 200 kall í græna Tóns-bolinn.
Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.