Uppskriftin
21.9.2008 | 00:57
Það er svo gjörsamlega óþolandi stundum að styðja Liverpool. Fyrir örfáum dögum völtuðum við yfir Man.Utd á Anfield, því næst fórum við til frakklands og sigruðum þar Marseille í fyrsta leik riðlakeppninnar. Svo kemur að leik á Anfield, og það gegn Stoke City. 4-0, 5-0 voru lágmarkskröfur til liðsins. Ég sem betur fer, var búinn að búa mig undir þessi úrslit og spáði leiknum 1-1. Hvers vegna ? Jú einmitt vegna þess að uppskriftin í kringum leiki Liverpool F.C. er akkúrat þessi. Dóminera leiki gegn t.d. United en gera svo jafntefli við Stoke City á heimavelli, og með stjörnuframherjann "El Nino" frammi og með honum/aftan við hann Robbie Keane.
Tony Pulis lagði þennan leik auðvitað eins upp með að fá alls ekki á sig mark í leiknum og stig á Anfield jafngildir allt að því sigri. (eins og reyndar önnur 18 lið hugsa eflaust þegar ferðalagið er á Anfield Road) Mér er bara svo nákvæmlega sama þó að stjóri Stoke City hafi lagt upp með þessa taktík á Anfield. Liverpool F.C. sem væntanlega ætlar sér að keppa um þann stóra þetta seasonið verður bara að gjöra svo vel og drullast til þess að sigra lið eins og Stoke City á heimavelli (og að sjálfsögðu einnig á Brittania ef út í það er farið). En neinei, 0-0 niðurstaðan eftir rúmlega 90mín leik og hvað gerist svo eftir leik, jú Rafael Benitez leggur á það þunga áherslu að aðstoðardómarinn hafi tekið af þeim sigurinn þegar hann dæmdi rangstöðu. Þetta var auðvitað ekkert rangstæða, en ég hefði skilið þetta ef að Liverpool væri WBA og þeir hefðu lent í þessu.
Á síðasta tímabili óskaði ég þess fyrir Liverpool að John Arne Riise, Peter Crouch og Dirk Kuyt hyrfu á brott frá félaginu. 66% árangur með þá ósk mína, en Riise seldur til Roma og Crouch til Portsmouth. Eftir stendur sá "duglegi". Ég er svo gjörsamlega komin með leið á honum, jújú, hann getur hlaupið og maður sér það alveg í sjónvarpinu að hann er að leggja sig fram. En þeir sem spila fyrir Liverpool F.C. eiga bara og skulu vera duglegir. En þeir verða líka að geta eitthvað í fótbolta. Ég vona að Martin Jol hafi ennþá áhuga á Kuyt í janúar og sannfæri stjórnarmenn Hamburg um að Kuyt sé rétti maðurinn fyrir liðið (sem verður reyndar að teljast frekar ólíklegt).
Svo er eitt annað. Robbie Keane. Keyptur samkvæmt soccerbase á 20.3milljónir punda ! Dagatalið mitt segir mér núna að það sé 21.september, og hefur Keane ekki enn skorað. Hann var svo langt frá því að vera byrjunarliðsmaður í Tottenham á síðasta seasoni, þó það hafi vissulega komið fyrir í meirihluta leikja. Hann var í allt sumar orðaður við Liverpool svo gerðist það í endaðan júlí að Liverpool reiddi fram rétt um 20 milljónir punda fyrir hann. Ég á erfitt með að lýsa því hversu óánægður ég var með viðskiptin, það hlaut bara að vera hægt að gera betra við allan þennan pening en að kaupa fyrrverandi leikmann Wolves, Inter, Leeds og Tottenham. Hvað kemur svo í ljós núna (má vera að ég eigi eftir að éta þetta allt saman ofan í mig) ? Jú, Robbie Keane sem átt að verða svo frábær kaup, m.a. vegna þess að hann þekkti ensku knattspyrnuna út og inn, hefur ekki enn skorað mark fyrir klúbbinn. Við hliðina á Fernando Torres á að vera leikmaður sem skorar einnig mörk.
Svo er ég, þrátt fyrir sigur gegn United m.a. nú í upphafi tímabils, með efasemdir gagnvart þessu stórfenglega plani sem Rafael Benitez hefur með liðið.
Vona ég hafi vitlaust fyrir mér.
Benítez segir mistök að dæma markið af | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Risinn er vaknaður
18.9.2008 | 22:14
Glæsileg byrjun F.H.-inga í N1 deildinni í kvöld. Það yrði óskandi að þetta stórveldi í íslenskum handknattleik næði sér á strik á ný. Þegar ég fylgdist sem mest með handboltanum þá voru F.H.-ingar þeir allra allra bestu, þetta var í kringum 1990. F.H.-ingar eiga t.d. besta byrjunarlið í íslenskum handknattleik frá upphafi en liðið var skipað þeim Bergsveini Bergsveinssyni í markinu, á línu var Þorgils Óttar Matthiesen (Halfdán Þórðarson bakkaði hann svo upp), vinstra horn Gunnar Beinteinsson, hægra horn Sigurður Sveinsson, vinstri skytta Hans Guðmundsson, hægri skytta Kristján Arason og leikstjórnandi liðsins var svo Guðjón Árnason.
Þetta byrjunarlið upp á sitt besta var óstöðvandi og man ég sérstaklega vel eftir rimmum liðsins við Selfyssinga sem voru þá með mjög gott lið, en að sjálfsögðu "keypt" lið. Þar voru nöfn eins og Sigurður Valur Sveinsson, Einar Gunnar Sigursson, bræðurnir Gústaf og Sigurjón Bjarnasynir, Sigmar Þröstur og fleiri mætti telja sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Rimmunni lauk held ég 4-3, hafnarfjarðastórveldinu að sjálfsögðu í hag.
Svo datt botninn töluvert úr þessu hjá F.H.-ingum. Fengum reyndar S-Kóreskan markvörð sem stóð sig vel með liðinu, eftir smá byrjunarörðuleika en þeir fjarlægðust toppbaráttuna fljótt sem endaði svo með þvi að þeir féllu um deild.
En sumsagt, núna komnir í deildina þar sem þeir eiga að vera, í deild þeirra bestu og í mínum villtustu draumum standa þeir uppi sem íslandsmeistarar innan 3ja ára.
Frábær endasprettur FH á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Liverpool
17.9.2008 | 15:53
Á þessari meðfylgjandi mynd gefur að líta Guðjón Arnar og Aniu Rycik, bestu vinkonu frúnnar minnar en þarna eru þau stödd á bryggjunni í Ustka, þar sem fram fór myndatakan úr brúðkaupinu. Á bryggjunni hittum við fyrir svona mótorhjólanagla sem þáði eina Vodka-flösku fyrir lán á hjólinu í 20mín.
Í gær áttust við í frakklandi, Marseille og Liverpool en til virkilega gamans má geta þess að Liverpool einmitt burstaði Man.Utd á Anfield nú um helgina, 2-1. Þrátt fyrir að 2-1 sé ekki endilega vísbending á að sigurliðið hafi "burstað" andstæðinginn þá var það nú engu að síður svo um helgina. Leikmenn Liverpool leyfðu United-mönnum að spila fótbolta í 10mín en eftir það, í rúmlega 80mín tóku mínir menn öll völd á vellinum og stóðu leikmenn á borð við Dimitar "30milljónir punda" Berbatov, Rio "30milljónir punda" Ferdinand, Carlos "35milljónir punda" Tevez, ásamt fleirum úr United, agndofa í leikslok, enda sjaldan sem eitthvað lið yfirspilar ensku meistaranna eins og Liverpool gerði nú um helgina.
En já, Marseille komst yfir gegn Liverpool 1-0 á 23mín og þá þurfti að jafna leikinn og hver var betur til þess fallinn en fyrirliði liðsins, Steven Gerrard með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Svo var réttilega brotið á öðrum frábærum leikmanni Ryan Babel og úr vítinu skoraði fyrrnefndur Gerrard örugglega og staðan 2-1 og frábær útisigur gegn nokkuð vel spilandi liði Marseille staðreynd.
Nú get ég án nokkurs vafa talað um "mína fjölskyldu", enda á heimilinu 2 fullorðnir og 2 börn og því fell ég eflaust inn í umræðurnar á alþingi þar sem talað er um "fjölskyldunum í landinu er ekkert sama" o.s.frv.o.s.frv. og þess vegna ætla ég að gera mikið úr svona neytendamálum hérna á síðunni. Núna ætla ég t.d. að byrja á því að ræða eina verslunarferð hjá okkur fjölskyldunni nú um daginn.
Það var sunnudagur og sólin heiðraði okkur með nærveru sinni og hlýju allan daginn og fannst mér þegar ég teygði úr mér snemma morguns þann dag að þetta væri nú aldeilis dagurinn. Hann byrjaði vel, krökkunum var gefið að borða og þeir elstu nærðust einnig. Svo var horft á barnaefni í u.þ.b. klukkutíma og svo var ákveðið að fara í göngutúr. Lagt var af stað og vorum við svona fjölskylduleg með barnavagninn og vorum ekki búinn að labba langt þangað til pabbinn og eldra barnið staðnæmdust á leikvelli þar sem var rólað í góðan hálftíma. Svo var haldið áfram og áfram þar til eldri stúlkan sá annan leikvöll sem hún nauðsynlega þurfti að komast á, til þess að leika og þegar samningar voru undirritaðir var niðurstaðan sú að hún fór og lék sér á meðan restin af fjölskyldunni, sú yngsta og foreldrarnir þurftu aðeins að "skjótast" inn í eina verslun hér í bæ. Þessi verslun er rekin af Samkaup, og heitir Úrval. Ég er nú vel meðvitaður um verðbólguna sem ríður yfir allt og alla á þessu kalda skeri okkar og spái í því svona stundum í það hvað hlutirnir kosta og slíkt áður en þeir eru rifnir úr búðarhillunni. Svo þegar við mættum með okkar fátæklegu körfu að kassanum og vörunum pípað í gegn hóf afgreiðsludaman upp rödd sína. "Eitthvað fleira" "Nei takk" "Þá verða þetta 11.359.-" ! Ég reyndi að halda lúkkinu þarna fyrir framan kassann og rétti því fram kortið mitt og spurði hún mig svo að því hvort ég vildi kvittunina, og svaraði ég játandi. Svo þegar ég var búinn að þrykkja þessum lífsnauðsynjum hverrar fjölskyldu ofan í rándýra poka fyrirtækisins sem ég hafði einnig keypt og var komin út sendi ég barnavagninn á frúna mína og fór að rýna í kvittunina, eins og um væri að ræða nískasta og mest pirrandi kúnna í verslunarsögu þjóðarinnar þá kom það í ljós ! Það hafði beinlínis verið logið að mér, er varðar verð á mörgum vörum, ef að þetta hefði verið einstakt atriði hefði ég nú ekki pirrað mig sérstaklega á því en um var að ræða 4 vörutegundir sem voru rangt verðlagðar í hillu m.v. kassaverð og viðbrögð mín við þessum hörmungarfréttum voru eflaust eins og hjá mörgum. Ég semsagt tuðaði um þetta á leiðinni heim og hringdi út í vini og kunningja og kvartaði og kveinaði í þeim vegna þessa verslunarleiðangurs. Þarna auðvitað hefði ég átt að snúa við með kvittunina og fá endurgreiddan mismuninn, sem var í kringum 700 krónur.
Í dag eru sumsagt 3 dagar síðan þessar hörmungar riðu yfir fjölskylduna, og hét ég mér því á sunnudaginn, að inn í þessa fokdýru verslun færi ég ekki í nánustu framtíð. Í morgun var svo smjörið "Smyrja" ekki til í Kaskó, og fór ég því í úrval og verslaði það þar, og svo svona eitt og annað í leiðinni og virðist ég hafa því tekið verslunina í sátt, eftir aðeins 3 daga í fýlu. Þess má svo til gamans geta að ég er íslendingur, fæddur hér og uppalinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Held áfram með þetta eitthvað
13.9.2008 | 00:59
Á meðan á dvöl minni stóð í póllandinu (70 dagar góðan dag) þá náði ég einungis að fylgjast með fréttum á þeim stórgóðu sjónvarpsstöðvum BBC World og Euronews, þ.e. á tungumáli sem ég á a.m.k. auðeldara með að skilja en pólsku. En auðvitað var ég ekki umsjónarmaður fjarstýringarinnar á heimili okkar í póllandi og þurfti ég langflesta daga að fylgjast með pólskum fréttum á pólsku. Það reyndar síaðist inn hjá mér pólskan, og eftir þennan tíma þarna kom ég heim, ósigrandi að mér finnst í pólsku og gæti m.a. held ég reddað mér nokkuð örugglega, ef ég t.a.m. færi á fyllerí í kvöld og vaknaði upp í Varsjá á morgun.
En já, í tilefni að því að ég komst heim allsgáður og töluvert brúnni, grennri, skemmtilegri og betri maður þá hef ég óvenjumikið fylgst með fréttum síðan ég lenti á klakanum.
Skrýtið samt að horfa á fréttir núna frá íslandi, m.v. það sem áður var. Nú skulda einhver kennitölufélög tugi, ef ekki hundruði millJARÐA og krónan veikist um u.þ.b. 1,5% á dag undanfarna daga. Árni Matthiesen, okkar viðkunnanlegi og óspillti fjármálaráðherra ræðst gegn ljósmæðrum og stefnir þeim, á meðan að 97% þjóðarinnar stendur þéttingsfast við bak þeirra í þeirri kjarabaráttu sem þær standa í. Jónas Haralz (vona að þetta sé rétt skrifað), níræður fyrrv. bankastjóri landsbankans er orðinn gáfaðasti maður í heimi eftir að hafa komið fram hjá Agli. Morðóður útlendingur fær sér einn öllara í leifsstöð áður en hann flýgur til London, og kemst þ.a.l. gegnum öryggishlið Jóhanns Benediktssonar. Það tókst honum vegna þess að Jóhann og hans lærisveinar (tæplega 60 þjónar) ruddust inn á hælisleitendur og tóku vegabréfin þeirra og peninga. Árni Johnsen færir "næstum því" gjaldþrota bónda vélina sína einn daginn, sem bóndinn hafði áður misst vegna peningaleysis. Næsta dag kærir hann svo Agnesi Bragadóttur fyrir ærumeiðingar og svo þarnæsta dag dregur hann kæruna til baka. Allir hundfúlir út í einu hænuna í ríkisstjórninni, ÞKG vegna þess að hún fór 2 ferðir til Kína til að horfa á ólympíuleikanna, en ætlar svo ekki að fara núna á sama stað til þess að fylgjast með fötluðum íþróttamönnum okkar.
Stærsta fréttin hinsvegar hingað til, síðan ég kom á klakann aftur, var þegar einn félagi minn sagði mér að Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður frjálslynda flokksins ætlar að fara í bókaútgáfu. Bókin semsagt á að snúast um innflytjendur og við erum að tala um 400 síðna bók hjá Magnúsi. Fjögur hundruð blaðsíður um innflytjendur, skrifaðar af Magnúsi Þór ! Nú hef ég aldrei, og get lofað því hérna núna, og mun aldrei kjósa þann stjórnmálaflokk sem Magnús Þór vinnur fyrir, en engu að síður ætla ég að lesa bókina. Ég spái því, og vona það í leiðinni, að þegar Magnús gefur þessa bók út, þá verði endanlega úti um stjórnmálaferil hans, sem er auðvitað löngu orðið tímabært reyndar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Enn og aftur
12.9.2008 | 13:23
Já, er maður enn á ný mættur í þennan heim, þennan bloggheim. Ég að vísu veit ekki af hverju svo er, en gæti verið vegna óbilandi áhuga á að koma frá mér þeim hugðarefnum sem brjótast um inn í mínum þybbna líkama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)